Nýr tækniskóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn undirrituðu skuldbindandi samkomulag þess efnis í dag. Næstu skref eru undirbúningur hönnunar og framkvæmdar með áætluð verklok haustið 2029.
„Þessi undirskrift hér í dag er risavaxið skref í eflingu verk- og starfsnáms, núna er loksins hægt að koma framkvæmdum af stað. Þetta hefur verið forgangsmál mitt sem menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og er mikið gleðiefni að sjá enn einn áfangann á þeirri vegferð verða að veruleika. Eftirspurnin er til staðar, bæði meðal nemenda og atvinnulífsins og því ánægjulegt að við stígum þetta mikilvæga skref nú saman til að mæta þessari þörf,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.