Fáni

Snemma hefur félagið átt sér fána, því að minnzt er á fána félagsins eins og sjálfsagðan hlut á fundi 17. sept. 1887, og litlu síðar kom til tals, að fyrir fána þann, er félagið hefði, væri tekið upp merki úr málmi, sem félagsmenn þá bæru, en ekkert afráðið þá.

22. júlí 1891 er samþykkt, að fáni félagsins skuli borinn við jarðarfarir þeirra Péturs Stefánssonar og Einars Jónssonar. Magnús Gunnarsson skyldi vera fánaberi.

3. febr. 1899 var samþykkt að tillögu Einars Pálssonar, að félagið fengi sér nýtt merki.

Ekki vita menn nú, hvernig hinn gamli félagsfáni hefur verið, og ekki virðast menn hafa verið ánægðir með hann til langframa, því að 14. des. 1900 var nefnd sú, sem fyrir löngu hafði verið kosin til að koma með tillögur um, hvernig fáni félagsins skyldi líta lit, alvarlega áminnt um að halda áfram starfi sínu og koma með tillögurnar, en þær áminningar báru ekki árangur.

25. júlí 1906 var rætt um að koma upp flaggi fyrir iðnaðarmenn og kosin fimm manna undirbúningsnefnd. Tæpu ári siðar lagði einn nefndarmanna, Jón Halldórsson, fram teikningu að fánanum, sem þó var ekki fullgjör. Samþykkt var að láta fullgera hana og nefndinni falið að grennslast eftir, hvað slíkur fáni mundi kosta. Skyldi því lokið fyrir næsta fund. Enn varð lítt úr framkvæmdum, og í sambandi við jarðarför Andrésar Bjarnasonar (sbr. bls. 307) var samþykkt, að búinn yrði til bráðabirgðafáni, sem nota mætti við jarðarfarir og skyldi letra nafn félagsins á hann.

Talað var um að ganga undir fána félagsins að afhjúpun Ingólfsmyndarinnar (sbr. bIs. 303).

25. jan. 1929 minnti Einar Gíslason á að ákveðið hefði verið fast fánamerki, hönd í þríhyrningi, sem heldur á blysi, og nú væri á Akureyri verið að vefa þetta merki úr alíslenzku efni í fána Iðnaðarmannafélagsins þar.

Umræður urðu nokkrar, og voru menn ásáttir um að koma fánamálinu í  framkvæmd, en nefnd sú, sem til þess var kjörin, tók ekki skjótt til starfa.

Áhugi var þó talsverður, og stjórnarfundi 24. marz 1930 höfðu borizt 7 tillögur um fána og á næsta félagsfundi voru valdir 4 menn í  nefnd til aðstoðar stjórninni, hverja tillögu velja skyldi. Á stjórnarfundi l. apríl voru eftir rækilega athugun tvær teikningar teknar úr, önnur eftir Ágúst Lárusson, sem beðinn var að teikna hana upp og setja í  hana skýrari liti, hin eftir Kristin Andrésson. Ennfremur var Guðmundur Einarsson fra Miðdal beðinn að gera tillögu um fána. Á félagsfundi l. maí þakkaði formaður lofsamlega þátttöku félagsmanna um gerð félagsfána og sýndi sðan hinar ýmsu teikningar, er borizt höfðu, og skýrði frá því að tillaga Ágústs Lárussonar hefði helzt fengið náð fyrir augum nefndarinnar, einkum fyrir það', hvað hún væri einföld og óbrotin, en það væri fyrsta skilyrði um félagsfána. Helgi H. Eiriksson skýrði þá frá fána Iðnaðarmannafélags Akureyrar, og þætti hann gersemi. Samþykkt var tillaga hans að fresta málinu enn og fela stjórninni og aðstoðarnefnd hennar að halda áfram störfum.

6. okt. 1930 bókar Guðmundur H. Þorláksson: "Ákveðið var að kalla saman fánanefnd á fund og vekja upp þann draug, svo að dygði."

Í l. hefti Tímaritsins 1931 segir Helgi Hermann, að vonandi sé, að iðnaðarmenn í Reykjavik geti fallizt á hið fallega merki, sem Akureyringar hafi þegar tekið upp í fána sinn.

Formaður gat þess 21. jan. 1932, að sýnishorn af fánanum yrði á 65 ara afmælinu, og gætu menn séð hann þar í  sannri stærð.

Á stjórnarfundi 13. maí 1940 bar fánamál á góma, en hann var því miður enginn til. Leit stjórnin svo á að það væri ekki vansalaust, ekki sízt ef til þess kæmi að afhenda sveinsbréf við hátíðlega athöfn (sbr. bls. 218). Fánamálið var svo talsvert á  dagskrá 1941.

Á félagsfundi 11. apríl 1944 taldi August Håkansson leiðinlegt, að svo gamalt félag ætti ekki fána. Fékk þetta góðar undirtektir, og voru þeir Þorsteinn Sigurðsson, Jónas Sólmundsson og August Håkansson kosnir í nefnd og selt alræðisvald um gerð fánans, og skyldi nefndin hafa lokið framkvæmdum fyrir 17. júní. Nefndin brá við hart, og 8. júní skilaði hún fánanum. Framsögumaður var Þorsteinn Sigurðsson. Sagði hann, að tíminn hefði verið ónógur, ef búa hefði átt til eins vandaðan fána og þeir á  Akureyri. Þessi fáni væri úr ullargarni, að vísu útlendu, ofinn af Karólínu Guðmundsdóttur. Dúkur hans væri í  tveim litum, hvítum og bláum. Samsettur væri hann eftir tillogum frá Jónasi Sólmundssyni og Kristni Andréssyni. Merki fánans ásamt nafni félagsins og stofnári er saumað í dúkinn með ullargarni, af Árnýju Guðmundsdóttur. Útfærslu á  útlínum, hlutföllum og uppdráttum í fullri stærð annaðist August Håkansson. Saum og hnýtingu kögurs gerði Unnur Árnadóttir. Toppur stangarinnar er fálki að lyfta sér til flugs, og gerði hann Karl Guðmundsson myndskeri. Hólk á stöng gerði vélsmiðjan Héðinn, fótstallur var smíðaður á húsgagnavinnustofu Þorsteins Sigurðssonar. Formennsku í nefndinni hafði Þorsteinn Sigurðsson annazt. Þakkaði hann öllum, er hlut áttu að máli, einkum meðnefndarmönnum sínum, og kvað lítinn vanda að vera formaður með svo ágætum samstarfsmönnum. Var svo fáninn afhjúpaður, og í lok ávarps síns flutti Þorsteinn Sigurðsson kvæði til fánans. Hefst það á þessu erindi:

Vér hillum þig, fáni, sem einingarafl,
vort átakamerki með litina hreina.
Þinn skjöldur sé hreinn gegnum tímanna tafl,
þitt tendraða blys skal til áfanga beina.
Með samstarfi knýtum vér bræðranna bönd,
vér berjumst til frama, ef hönd styður hönd.
Þótt víðfeðm sé heiðblámans voröld í huga,
þarf vitið og höndin til sigurs að duga.

Formaður tók nú til máls, og miðað við allt, sem félagið hefði komið til leiðar, þá væri merkilegt, að það hefði ekki eignazt fána. Hann minntist á fyrri nefndarskipanir og umræður, en framkvæmdir virtust alltaf hafa strandað á því, að ekkert þætti nógu gott og fullkomið. Hann þakkaði nefndinni störfin, sem hún hefði innt af hendi á ótrúlega stuttum tíma og gert fána, er ekki væri aðeins bráðabirgðafáni vegna 17. júníhátíðarinnar, heldur frambúðarfáni, sem félagsmenn gætu verið stoltir af. Ef iðnaðarmenn sýni þann metnað, að fjölmenna við hátíðahöldin  17. júní, þá geti þeir það nú undir merki síns gamla félags, og það sé nefndinni að þakka. Á svo skömmum tíma var lausn þessa máls ekki á allra færi. Hann óskaði þess að lokum, að fáninn mætti ekki aðeins örva félagsmenn til dáða og athafna, heldur og viðhalda og auka virðingu félagsins.

A stjórnarfundi 22. mar. 1945 lagði formaður til, að kosinn yrði sérstakur gæzlumaður fánans, sem jafnframt yrði fánaberi. Á félagsfundi 12. apríl sama ár var Haraldur Ágústsson til þess kosinn eftir tillögu formanns.