Nýsveinahátíðin haldin í tíunda sinn

Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík verður haldin hátíðleg í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur laugardaginn 6. febrúar kl. 16.00. Þetta er tíunda nýsveinahátíð IMFR til heiðurs nýsveinum sem hafa lokið sveinsprófi með afburðarárangri. Á hátíðinni verða 23 nýsveinar úr 14 löggiltum iðn- og verkgreinum frá sex verkmenntaskólum á landsvísu sem veitt viðurkenning fyrir afburðaárangur í sinni iðngrein á sveinsprófi.

Hátíðin er einn af hornsteinunum í starfi félagsins og er mikil áhersla lögð á að umgjörðin sé glæsileg, nýsveinum, meisturum þeirra, iðnfélögunum og verkmenntaskólum landsins til heilla.

Á ári hverju leggja ungmenni í ýmsum iðngreinum mikið á sig til að ná afburðarárangri á sveinsprófi. Auk viðurkenninganna verður valinn heiðursiðnaðarmaður ársins.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson er verndari hátíðarinnar og mun afhenda viðurkenningarnar. Auk hans ávarpa hátíðina iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningaráðherra og fulltrúi borgarstjóra Sóley Tómasdóttir.