Helgina 5.-8. júní 2025 fór fram sameiginlegur fundur fulltrúa norrænna iðnaðarmannafélaga á Selfossi, í boði IMFR.
Fulltrúar frá Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku auk Íslands funduð um málefni landanna.
Sérhvert land kynnti stöðu mála tengt málefnum iðnaðar, menntun, áhrifum tengt Úkraínustríði o.fl.
Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt frá Batteríinu, kynnti nýjan miðbæ á Selfossi og áform um áframhaldandi uppbyggingu.
Steinar Steinarsson, fyrrum flugstjóri hjá Flugleiðum, flutti áhugavert erindi um flug til Suðurskautslandsins.
Um kvöldið var haldinn sameiginlegur kvöldverður í Oddfellowheimilinu á Selfossi þar sem snæddur var dýrindis matur auk þess sem listakonan Lay Low flutti okkur nokkur lög við góðan róm viðstaddra.
Á laugardeginum fór hópurinn í skipulagða ferð til Vestmannaeyja þar sem Geir Jón Þórisson leiðsagði okkur um Eyjar og sögu þeirra.
Að henni lokinni fór hópurinn í Eldheima, snæddi súpu og brauð áður en hann kynnti sér sögu gossins 1973 og rölti um bæinn.
Veðrið lék við hópinn allan tímann og var það mál manna að vel hefði til tekist.
Svona fundur gerist ekki að sjálfu sér en auk stjórnar, voru okkur til halds og trausts og aðstoðar Trausti Víglundsson og Ana Marta Montes Lage.
Við nutum styrkja frá fyrirtækjum og aðstoðar í hvívetna frá öllum sem að komu og eru þeim færðar okkar bestu þakkir fyrir.
Næsti fundur er síðan ráðgerður í Færeyjum í maí 2026.
Fjöldi mynda var tekinn þessa daga og sáu Hjörtur Guðnason, Jón Svavarsson, Ingibjörg Barðadóttir o.fl. um og má sjá hluta þeirra hér.