IMFR 150 ára 2017

Þann 3. febrúar 1867, fyrir 150 árum, stofnaði 31 iðnaðarmaður Handverksiðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Um sex árum síðar var félagið nefnt Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík er hið þriðja elsta sem nú hefur starfað óslitið á Íslandi. Tilgangur félagsins er og hefur frá upphafi verið að efla menntun og menningu iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu. Saga félagsins hefur verið tengd sögu iðnaðar á Íslandi órofa böndum í 150 ár.

Félagið var frumkvöðull í löggildingu iðngreina. Það stóð fyrir stofnun Iðnskólans í Reykjavík, fyrir fyrstu iðnsýningunni hérlendis og var virkur þátttakandi í stofnun Iðnaðarbanka Íslands svo fátt eitt sé talið. Á þessum tímamótum hefur Iðnaðarmannafélagið ákveðið að minna á sögu sína og fortíð með því að standa fyrir hönnun og kosta lýsingu á styttu Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var gjöf félagsins til þjóðarinnar árið 1924.

Á 100 ára afmæli félagsins var gefin út Saga Iðnaðarmannafélagsins. Á þessum tímamótum gefum við út heimildarmynd þar sem sögð er 150 ára saga félagsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samtök iðnaðarins veittu fjárhagslegan styrk til verkefnisins.

Þann 16. febrúar mun Pósturinn gefa út frímerki í tilefni afmælisins. Borgar H. Árnason, grafískur hönnuður, hannar frímerkið og fyrstadags umslag.

Í ágúst síðastliðinn varð Reykjavíkurborg 230 ára. Borgin var aðeins 80 ára þegar félagið okkar var stofnað. Því er saga borgarinnar og saga félagsins samofin til þessa dags. Nýsveinahátíð er stærsti árlegi viðburðurinn á vegum Iðnaðarmannafélagsins og hefur svo verið um tíu ára skeið.

Þá komum við saman í Ráðhúsi Reykjavíkur til heiðurs og viðurkenningar um það bil 20 nýsveina sem sýnt hafa afburðaárangur í námi og á sveinsprófi. Forseti Íslands er verndari hátíðarinnar og jafnan mæta ráðherrar iðnaðar- og menntamála til leiks auk borgarstjóra og fjölda gesta. Nýsveinahátíðin er í raun „uppskeruhátíð“ iðnaðarmanna og iðnaðar. Þá bætist í okkar hóp fjöldi afburðafólks sem mun bera upp merki iðnaðar og handverks um langa framtíð.

Ágætu félagar. Framundan er upphaf afmælisársins. Þann 3. febrúar munum við fagna 150 ára afmælinu með því kveikja á lýsingu á styttu Ingólfs Arnarsonar við hátíðlega athöfn á Arnarhóli kl. 17:00. Við óskum þess að allir félagsmenn mæti og þiggi veitingar að athöfn lokinni í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði borgarstjóra. Þann 2. febrúar verður fundur með fulltrúum norrænu systurfélaganna og öðrum gestum Iðnaðarmannafélagsins. Að fundi loknum er heimsókn í listasafn Einars Jónssonar. Þann 4. febrúar verður ellefta nýsveinahátíðin haldin kl. 14:00 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Að kvöldi 4. febrúar er hátíðarkvöldverður kl. 19:00 á Hótel Nordica með öllum félögum Iðnaðarmannafélagsins og öðrum velunnurum þess. Fyrir hönd félagsins býð ég ykkur, kæru félagsmenn, til 150 ára fagnaðar og óska þess að við gerum dagana ógleymanlega í minningu genginna iðnaðarmanna og til hvatningar iðnaðarmönnum dagsins og framtíðarinnar.

Valbjörg Elsa Haraldsdóttir

 

Miðvikudagur 1. febrúar

Norrænir gestir koma til landsins.

Fimmtudagur 2. febrúar

10:00 - 16:00 Norrænn fundur í fundarsal Kvika í Borgartúni 35

10:00 – 14:00 Dagskrá fyrir erlenda maka – Ferð í Þjóðminjasafnið

17:00 - 19:00 Móttaka í Listasafni Einars Jónssonar

Föstudagur 3. febrúar

17:00 Félagar IMFR koma saman á Arnarhóli – Tendruð verður lýsing á styttu Ingólfs Arnarsonar að viðstöddum forsætisráðherra, borgarstjóra og öðrum gestum. Hönnun og lýsing eru gjöf frá félaginu. 17.30 Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, býður til móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Laugardagur 4. febrúar

14:00 Nýsveinahátíð IMFR í Ráðhúsi Reykjavíkur haldin í ellefta sinn.

19:00 Hátíðarkvöldverður á Hilton Reykjavík Nordica.