Afbragðsárangur nýsveina á Nýsveinahátíð 2016

Tatas Augustinatis, nýsveinn í múrsmíði, fékk sérstaka viðurkenningu á Nýsveinahátíð á laugardaginn var. Námsárangur Tatasar var einstakur en hann fékk 10 í einkunn á sveinsprófi. Auk hans fékk Guðbjörg Helgadóttir, sem lauk sveinsprófi í snyrtifræði, sérstaka viðurkenningu fyrir afbragðseinkunn. Icelandair Hotels verðlaunaði þau fyrir frábæran námsárangur með ferðastyrk til útlanda.
Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykavík (IMFR) var haldin hátíðleg í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á laugardaginn 6. febrúar. Þetta var tíunda nýsveinahátíðin sem IMFR hefur haldið til heiðurs nýsveinum sem lokið hafa sveinsprófi með afburðaárangri. Að þessu sinni hlutu 24 nýsveinar úr 14 löggildum iðn- og verkgreinum viðurkenningar fyrir afburðaárangur í sinni iðngrein á sveinsprófi. Nýsveinarnir lærðu iðnir sínar við sex verkmenntaskóla á landinu.

Bóas Orri Du Teitsson fékk ferðastyrk frá Alcoa Fjarðaáli, en fyrirtækið veitir ferðastyrk nýsveini sem hyggur á framhaldsnám erlendis. Bóas var að ljúka sveinsprófi í málaraiðn og hefur nú hafið nám í fatasaumi.

Háskólinn í Reykjavík veitti fjórum nýsveinum styrk til framhaldsnáms við skólann í eina önn. Styrkþegarnir voru Bjarni Freyr Þórðarson, nýsveinn í rafvirkjun, Vignir Steindórsson, nýsveinn í pípulögnum, Sverrir Jónsson, nýsveinn í rafeindavirkjun, og Jón Þorgilsson, nýsveinn í húsasmíði.

Nýsveinarnir fengu ýmist brons- eða silfurpening með merki IMFR. Hver peningur var í handsmíðaðri öskju sem Guðmundur Eggertsson, heiðursfélagi IMFR, smíðaði. Auk þess afhenti forseti Íslands nýsveinum og meisturum þeirra viðurkenningarskjöl.

Katrín Þorkelsdóttir, snyrtifræðimeistari og varamaður í stjórn IMFR, sagði að þessar viðurkenningar væru mikil hvatning fyrir nýsveina og ekki síður fyrir iðnmeistara að leggja alúð við menntun og undirbúning lærlinga sinna.

Halldór Ólafsson, rafvirkjameistari og varaformaður IMFR, sagði það mikils virði að hafa fengið Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til að vera verndari hátíðarinnar á sínum tíma. Hann hefði alltaf mætt og haldið ræður. Auk hans komu m.a. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir atvinnuvegaráðherra og Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar.

Þessi texti er með leyfi Guðna Einarssonar gudni@mbl.is