Bakarar nota í sinni vinnu mörg hundruð eða þúsund ára gömul handtök. Það breytist ekki þó svo að vélarnar geri það. Ekkert kemur í stað fyrir gamla handverkið,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, eigandi og bakarameistari Bernhöftsbakarís sem fagnaði á dögunum hvorki meira né minna en 180 ára afmæli. Aðspurður hver galdurinn sé á bak við 180 ár í rekstri segir hann enga eina rétta leið vera til. „Það er helst að reyna að hafa vöruna í lagi og bjóða upp á góða þjónustu,“ segir hann og bætir við að nauðsynlegt sé að fylgjast með því sem er að gerast hverju sinni. Nauðsyn þess má greina í því að tískusveiflur eru í bakkelsinu að sögn Sigurðar, þó snúðar og vínarbrauð hafi alltaf haldið sínu sæti. „Í dag er súrdeigsbrauðið vinsælt, bæði hefðbundin og þýsk. Fyrir nokkrum árum var það speltið. Þetta er miklum sveiflum háð og nauðsynlegt er að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur,“ segir hann.
Gáfu gestum kökur og kaffi
Sigurður tók við rekstri Bernhöftsbakarís fyrir tíu árum og hefur lengi unnið í faginu þar sem hann hóf bakaranám árið 1992. Sigurður er barnabarn Sigurðar Bergssonar, sem tók við rekstrinum af Daníel Gottfedt Bernhöft, syni Tönnies Daniel Bernhöft - fyrsta bakara Bernhöftsbakarís.
Sigurður segir að haldið hafi verið upp á afmælisdaginn með kaffi og kökum fyrir gesti og gangandi auk þess sem afmælistaupokar hafa verið gefnir á hverju afmæli á fimm ára fresti.
Ekkert sætabrauð nema kökur
Rekstur brauðgerðarinnar í Bernhoftsbakarí hófst þann 25. september 1834 en lengi framan af var þar ekkert bakað nema rúgbrauð, sigtibrauð, franskbrauð, súrbrauð og landbrauð. Þó voru einnig voru bökuð rúnnstykki eftir pöntun sem og bakað var hart brauð, skonrog, tvíbökur og kringlur.
Ekkert sætabrauði var hægt að fá nema þá hunangskökur og þurrar kökur, svonefndar tveggja aura kökur. Í kringum 1840 var fyrst farið að baka vínarbrauð og bollur.